Viðskipti erlent

Tekjur Apple drógust saman enn eina ferðina

Samúel Karl Ólason skrifar
Tim Cook er forstjóri Apple.
Tim Cook er forstjóri Apple. EPA/JOHN G. MABANGLO

Tekjur Apple drógust saman í fimmta sinn á síðustu sex ársfjórðungum. Í heildina voru tekjurnar 90,8 milljarðar dala á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, sem er fjórum prósentum minna en þær voru á sama tíma í fyrra.

90,8 milljarðar dala samsvarar um 12,7 billjónum króna. Ársfjórðungurinn sem endar í lok mars er í raun annar ársfjórðungurinn á fjárhagsári Apple. Áhugsamir geta fundið frekari upplýsingar um uppgjörið á vef Apple.

Samdrátturinn hefur að miklu leyti verið rakið til vandræða í símasölu Apple og aukinnar samkeppni vegna snjallsíma sem framleiddir eru í Kína.

Á undanförnum árum hefur forsvarsmönnum Apple gengið erfiðlega að auka sölu iPhone snjallsíma en það hefur um árabil verið helsta tekjulind fyrirtækisins. Á síðasta ársfjórðungi dróst salan saman um 10,5 prósent, borið saman við fyrsta fjórðung 2023.

Þrátt fyrir samdráttinn hækkaði virði hlutabréfa Apple um rúm sjö prósent eftir að uppgjörið var birt í gær. Samkvæmt frétt Wall Street Journal var það vegna þess að forsvarsmenn fyrirtækisins samþykktu að verja 110 milljörðum dala í að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu og gáfu til kynna að fyrirtækið muni skila hagnaði á núverandi ársfjórðungi.

Apple stendur frammi fyrir ýmsum lagalegum vandræðum um þessar mundir. Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna höfðaði til að mynda mál gegn fyrirtækinu í mars og sakaði það um að beita einokunarstöðu á markaði snjallsíma til að koma í veg fyrir samkeppni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×